Desember 1955

Árið 1994 var frumfluttur útvarpsþátturinn Sex dagar í desember á Ríkisútvarpinu Rás 1. Umsjón hafði Jón Karl Helgason og Anna Melsteð sá um hljóðstjórn.

Í þættinum rifjuðu nokkrir gestir upp Nóbelshátíðina í Stokkhólmi árið 1955 en sögumaður þáttanna er Ragnar Jónsson í Smára, útgefandi Halldórs, sem skrifaði vinum á Íslandi bréf um þessa viðburðaríku desemberdaga.

Viðmælendur í þættinum voru Auður Laxness, eiginkona Halldórs; Doris Briem, eiginkona Helga Briem sendiherra og Sylvía Briem dóttir þeirra; sænski bókmenntafræðingurinn Peter Hallberg sem þýddi ýmis verk Halldórs og skrifaði fjölda bóka og ritgerða um skáldið; Birgir Möller, sem þá var sendiráðsritari í Stokkhólmi; Erlendur Lárusson, Haukur Tómasson og Sveinn Einarsson, en þeir voru í stjórn íslenska stúdentafélagsins í Stokkhólmi árið 1955. Þorsteinn Helgason ljáði Ragnari Jónssyni rödd sína.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur í spilara RÚV en í hann verður einnig vísað víðar á þessari síðu um Nóbelshátíðina 1955.

Í Stokkhólmi

Eftir að ljóst var að Halldór hlyti Nóbelsverðlaunin var honum fagnað á hafnarbakkanum í Reykjavík við heimkomu með Gullfossi, þann 4. nóvember 1955. Skömmu seinna lá leiðin aftur út.

Í byrjun desember hélt skáldið aftur til Svíþjóðar ásamt eiginkonu sinni, Auði Laxness, til að veita verðlaununum viðtöku. Þau hjónin komu til Stokkhólms 9. desember en verðlaunin voru afhent daginn eftir. Fjölmargir Íslendingar, þar á meðal nánir vinir Halldórs, voru viðstaddir.

Hádegisverður í Stokkhólmi 10. des. 1955. Fremri röð f.v.: Sven B.F. Jansson, Þórunn Ástríður Björnsdóttir, Sigurður Nordal, Kristín Hallberg, Halldór. Aftari röð: Peter Hallberg, Ragnar Jónsson, Ólöf Nordal, Jón Helgason, Auður. Ljósm./Strandvägsateljén

Í fléttuþættinum Sex dagar í desember, sem frumfluttur var í Ríkisútvarpinu árið 1994, lýstu nokkrir gestanna aðdraganda hátíðarinnar. Hér gefur að heyra raddir Auðar Laxness, Peters Hallberg, bókmenntafræðings og þýðanda, og Erlends Lárussonar og Hauks Tómassonar, sem þá voru við nám í Svíþjóð. Ennfremur er lesið úr bréfi sem Ragnar Jónasson, útgefandi Halldórs, skrifaði frá Stokkhólmi um þessa viðburðaríku daga.

Afhendingin

Halldór Kiljan Laxness tekur við Nóbelsverðlaununum úr hendi Gústafs Adolfs VI. Svíakonungs. Ljósm./Text & Bilder.

Kvöldverðurinn

Að lokinni afhendingu Nóbelsverðlaunanna var efnt til glæsilegrar veislu í ráðhúsinu í Stokkhólmi. Þar voru meðal gesta sænska konungsfjölskyldan, stjórnmálamenn og ráðherrar, félagar Sænsku akademíunnar, verðlaunahafar, aðstandendur þeirra og vinir.

Halldór og sessunautur hans, Margrét Svíaprinsessa. Ljósm./Text & Bilder.

Að loknu borðhaldi fluttu verðlaunahafar þakkarávörp og hefur ræða Halldórs birst í greinasafninu Gjörníngabók (1959).

Borðhaldið í gyllta sal ráðhússins. Ljósm./GeBe foto.

Í fyrrnefndum útvarpsþætti, Sex dagar í desember, lýstu nokkrir veislugesta borðhaldinu. Þeirra á meðal voru Auður Laxness, Ragnar Jónsson, Peter Hallberg, Birgir Möller sendiráðsritari og Doris Briem, eiginkona Helga Briem sendiherra.

Dansleikurinn

Að loknu borðhaldi og þakkarávörpum hófst dansleikur í ráðhúsinu með þátttöku gesta á Nóbelshátíð og sænskra stúdenta. Í þættinum Sex dagar í desember lýstu nokkrir veislugestir dansleiknum. Þeirra á meðal voru Ragnar Jónsson, Birgir Möller, Auður Laxness og Doris Briem.

Frá dansleiknum í ráðhúsi Stokkhólmsborgar. Halldór ásamt sænskum stúdínum. Ljósm./Text & Bilder.

Í viðtali sem Jón Magnússon, fréttastjóri Útvarpsins, átti við skáldið 4. nóvember 1955 kom vel fram hvert gildi Nóbelsverðlaunin höfðu fyrir Halldór sjálfan.